Í faðmi fjalla blárra | Ævintýraferð um Vestfirði

Über die Reise

Í faðmi fjalla blárra | Ævintýraferð um Vestfirði

22.06.2020 – 28.06.2020

Náttúrufegurð og fjölbreyttni Vestfjarða er engu lík. Þar mætast hrikaleg fjöll og grösugir dalir, klettótt strönd, rauður skeljasandur, jökulhvel og heitar laugar. Á Vestfjörðum eru mestu fuglabjörg veraldar, selir kæpa á skerjum og lágfóta skýst um hlíðar. Ef þú leitar kyrrðar, fámennis og óspilltrar náttúru er þessi ferð fyrir þig.

Gist er á góðum hótelum og öll herbergi búin baði. Innifalið í ferðinni eru morgunverður, súpa undir berum himni í hádeginu og tveggja rétta kvöldverður. Öll hótel nema eitt bjóða upp á heita potta eða sundlaug. Hádegisnesti keypt á leiðinni. Á hverjum degi er farið í léttar gönguferðir við allra hæfi.

Ferðast er í rúmgóðri rútu svo auðvelt er að fylgja leiðbeiningum um sóttvarnir. Hámarksfjöldi farþega 26.

Búnaður: Léttir gönguskór, kíkir, dagpoki.

Leiðsögumaður er Gunnsteinn Ólafsson tónlistarmaður. Gunnsteinn hefur verið fararstjóri á Íslandi í þrjá áratugi og átt mörg spor um Vestfirði. Árið 2018 gaf hann út bókina Hjarta Íslands – Perlur hálendisins ásamt Páli Stefánssyni ljósmyndara. Nú vinna þeir félagar að nýrri bók um Ísland sem fjallar m.a. um Vestfjarðakjálkann, náttúru hans og sögu.

Nánari ferðalýsingu má finna undir Itinerary flipanum hér að ofan.

Buchen

Við tökum á móti bókunum með tölvupósti á netfangið [email protected] eða í gegnum síma 551 9700.


Highlights

 • Fellsströnd og Skógarströnd, útsýni yfir Breiðafjarðareyjar
 • Óspillt náttúra og fuglalíf
 • Fossaröð í Asparvíkurdal
 • Bátsferð í Grímsey á Steingrímsfirði
 • Kaldalón við Drangajökul
 • Djúpavík og Krossneslaug
 • Bolungarvík og Bolafjall
 • Ganga á Kjaransbraut
 • Fossinn Dynjandi
 • Rauðisandur og Látrabjarg
 • Heimsóknir og spjall við heimamenn
 • Heitir pottar og laugar

Preis

Preis ohne Flug Preis
Verð á mann í tvíbýli í ísl kr. 199.000,- ISK
Aukagjald fyrir einbýli í ísl kr. 20.000,- ISK

Termine

Ankunft Abreise Verfügbarkeit
22. Júní 2020 28. Júní 2020

Leistungen

 • Allur akstur
 • Íslensk leiðsögn
 • Gisting í 6  nætur í herbergi með baði og Morgunverði
 • Kaffi, te og bollasúpa í hádeginu
 • Sigling út í Grímsey
 • Aðgangur að söfnum
 • Kvöldverður í 6 daga
 • Lágmarksfjöldi farþega 12, hámarksfjöldi 26 farþegar

 

Reiseverlauf

1

Fellsströnd og fjögurra laufa smári

Mæting á Umferðarmiðstöðinni klukkan 8.30. Brottför kl. 9.00. Ekið um Borgarnes að fossinum Glanna í Norðurárdal, rjómabúið að Erpsstöðum skoðað. Við höldum út á Fellsströnd og heimsækjum Hvamm, bæ Auðar djúpúðgu og Hvamms-Sturlu og lítum eftir fjögurra laufa smára í túni. Haldið að Dagverðarnesi; farið í stutta gönguferð niður að strönd og gamla sóknarkirkjan á Dagverðarnesi heimsótt. Að lokum skoðum við Skarðskirkju og rifjum upp sögu svarta víkingsins, Geirmundar heljarskinns. Gisting á Hótel Vogi með glæsilegu útsýni yfir Breiðafjarðareyjar og Snæfellsjökul.

 

2

Skarðsströnd og Strandir

Við hefjum daginn í Ytri-Fagradal á Skarðsströnd og hittum Höllu Sigríði Steinólfsdóttur sem fræðir okkur um lífrænt vottaðar jurtir, söl, hunang og sauðfjárbúskap í Breiðafjarðareyjum. Leiðin liggur um Gilsfjörð, áfram yfir Þröskulda og um Steingrímsfjörð yfir í Bjarnarfjörð á Ströndum. Síðdegis ökum við norður í Árneshrepp. Í Djúpuvík reis stærsta síldarverksmiðja Evrópu árið 1934. Við stöldrum þar við og höldum síðan í Litlu-Ávík að skoða Kistuvog þar sem þrír menn voru brenndir fyrir galdur árið 1654. Við kynnumst einnig aldagamalli vinnslu Strandamanna á rekaviði. Gist er á Laugarhóli Í Bjarnarfirði. Þar bíður okkar dásamleg sundlaug og náttúrulegur pottur, vígður af Guðmundi góða biskupi.

 

3

Kaldalón - ein fallegasta náttúruperla Vestfjarða

Drangsnes heitir lítið, vinalegt fiskiþorp við Steingrimsfjörð. Þar skammt undan landi er Grímsey á Steingrímsfirði. Við heimsækjum þorpið og höldum svo á bát út í eyna ef veður leyfir, að skoða eitt mesta lundavarp landsins. Frá Drangsnesi ökum við yfir Steingrímsfjarðarheiði og höldum inn í Kaldalón. Kaldalón er stuttur, grösugur dalur við rætur Drangajökuls og þykir ein fallegasta náttúruperla Vestfjarða. Að göngu lokinni setjumst við á kaffihús á bernskuslóðum Steins Steinarrs á Nauteyri; höldum svo áfram að Reykjanesi við Ísafjarðardjúp. Við skoðum okkur um á hverasvæðinu við gamla héraðsskólann og svipumst um eftir sel í fjöruborðinu. Gisting á sveitahótelinu Heydal í Mjóafirði með baðlaug í gróðurhúsi og heitum potti.

 

4

Horft yfir Ísafjarðardjúp

Við ökum um Ísafjarðardjúp og minnumst Spánverjavíganna sem Ari sýslumaður í Ögri stóð á bak við – og áfram inn í Skötufjörð. Þar æjum við í gömlum stein- og torfbæ sem kallast Litlibær og var reistur árið 1895. Sigríður Hafliðadóttir bjó þar um tíma og tekur á móti okkur á kaffihúsinu sem hún rekur innan gamalla veggja. Í grennd við Litlabæ skoðum við hringmyndaða fjárborg frá miðöldum. Úr Skötufirði höldum við áfram fram hjá Hestfjalli þar sem skáldið á Þröm bjó, fyrirmynd Halldórs Laxness að Ólafi Kárasyni ljósvíkingi, og áfram út í Súðavík. Ferð okkar um Ísafjarðardjúp endar á Bolafjalli við Bolungarvík. Akfært er á á topp fjallsins, eins besta útsýnisstaðar á Vestfjörðum. Við horfum yfir Ísafjarðardjúp og jafnvel allt til Jökulfjarða og Hornstranda. Á leiðinni til Ísafjarðar heimsækjum við endurgerða verbúð í Ósvör; þar er einstakri mynd brugðið upp af lífi sjómanna við Íslandsstrendur fyrr á öldum. Loks höldum við í náttstað á Hótel Sandafell á Þingeyri við Dýrafjörð.

5

Dýrafjörður og Dynjandi

Á Þingeyri lítum við inn í elstu starfandi vélsmiðju landsins sem jafnframt er hluti af Byggðasafni Vestfjarða. Þaðan ökum við að Hrauni í Keldudal. Elías Kjaran ruddi hér leið með ströndu yfir í Arnarfjörð og þykir hún einn ævintýralegasti vegur vestra. Við göngum spölkorn eftir Kjaransbraut með útsýni yfir Dýrafjörð og njótum samvista við fýl á sveimi í björgunum umhverfis. Við heiðrum minningu Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri og sækjum svo einn fegursta foss landsins heim, Dynjanda í botni Arnarfjarðar. Loks ökum við yfir Dynjandisheiði fram hjá söguslóðum Gísla Súrssonar í Geirþjófsfirði og niður að Flókalundi í Vatnsfirði. Á þessu nýuppgerða hóteli gistum við tvær nætur og njótum þess að hvíla lúin bein í himneskum heitum potti við hjalandi sjávaröldu.

6

Látrabjarg og Rauðasandur

Dagsferð á Látrabjarg og Rauðasand. Við ökum eftir Barðaströnd, yfir í Patreksfjörð og að byggðasafninu á Hnjóti. Þar horfum við á heimildarmynd Óskars Gíslasonar um björgunarafrekið á Látrabjargi þegar heimamenn björguðu skipverjum af breska togaranum Dhoon árið 1947. Að því búnu höldum við út á Látrabjarg, eitt mesta fuglabjarg veraldar og virðum fyrir okkur stórbrotið fuglalífið, selalátur á Bjargtöngum og brimið við ströndina. Við höldum síðan á Rauðasand þar sem rauður skeljasandur teygir sig svo langt sem augað nær með ströndinni. Gerum stans á hinu forna höfuðbóli Saurbæ, lítum inn í kirkjuna og bergjum jafnvel á café au lait á franska kaffihúsinu. Á heimleið í Flókalund rifjum við upp Svartfugl Gunnars Gunnarssonar og hina vofeiflegu atburði sem gerðust á Sjöundá á Rauðasandi.

7

Haldið heim á leið

Við ökum um norðanverðan Breiðafjörð inn í Dali. Fuglalíf er einstakt á þessum slóðum. Hér eiga þúsundir æðafugla heimkynni sín og hvergi eru jafn góðar líkur á að sjá haförn. Við stoppum á Reykhólum og skoðum okkur um við tjörn þar sem sjá má flórgoða og branduglu bregða fyrir. Að lokum er haldið um Búðardal í Borgarnes og til Reykjavíkur.

Galerie